Meira Ruglið – Land’s End til John O’Groat

Hví gerir maður þetta? Af hverju getur maður ekki slakað á í sumarfríinu eins og venjulegt fólk? Kristján Guðni, sem var með okkur bræðrum þegar við hjóluðum skáhallt yfir Ísland, hringir og vill hjóla allt Bretland enda á milli. Ég spyr hvort ég megi koma með. Af hverju? Er ég ruglaður? Hann æfir hjólreiðar og er vanur að hjóla á götu. Kemst ég 1600 kílómetra á tveimur vikum? Það voru bara 800 kílómetrar yfir Ísland. Ég er samt búinn að fá mér hjól í þetta og töskur og verð að nota dótið. Við fljúgum til London á stuttbuxum og bol með hjól og hjólagalla. Við keyrum suður á syðsta og vestasta odda Cornwall.

Mynd: Kristján – Upphafspunktur við Land’s End í Cornwall. Takið eftir textanum sem við fengum að velja á skiltið.


Við höfðum gluggað í bók á leið til London um tvo unga Breta sem fóru LEJOG á hjólum eins og við nema hvað þeir byrjuðu hjóllausir á nærbrókinni einni fata og treystu á góðvild samlanda sinna alla leið með föt, mat, hjól, gistingu og allt sem þeir þurftu. Þetta gekk hjá þeim og meira en svo því þeir náðu líka að njóta lífsins. Fara í siglingu, bíó, útsýnisferð, drekka öl, borða ís. Allt fyrir góðvild íbúa þessa lands. Þessi bók bjargaði okkur strax þarna kvöldið fyrir upphaf ferðar. Við skutluðum öllum okkar búnaði á tjaldstæði nærri Land’s End og keyrðum svo um fimmtán kílómetra til Penzance til að skila bílnum, fá okkur að borða og versla nesti fyrir fyrsta daginn. Klukkan hálftólf um kvöld stöndum við á bílastæði utan við kjörbúðina og hringjum í alla mögulega leigubíla bæjarins en það virkar víst ekki þannig í þessum bæ og þeir allir komnir í ró svona seint á laugardagskvöldi. Nú voru góð ráð dýr en þá verður okkur hugsað til George og Ben. Hvað hefðu þeir gert? Við snúum okkur því að ungu pari sem er að koma úr búðinni og spyrjum hvort þau geti skutlað okkur þessa fimmtán kílómetra á tjaldstæðið. Þau eru reyndar á leið í hina áttina en bara algjörlega sjálfsagt. Þetta virkaði sem sagt og það í fyrstu tilraun. Við aftur í Mini sem reynist furðu rúmgóður og spjöllum alla leiðina. En ólíkt George og Ben þá megum við alveg nota peninga og látum þau hafa fyrir bensíni og vonandi rúmlega það.

Mynd: Kristján – Glaðbeittir að morgni fyrsta dags áður en við hjóluðum svo suður að upphafspunkti leiðangursins.


Morguninn eftir vakna ég í tjaldinu og fatta að mig var ekki að dreyma. Ég er í alvöru búinn að koma mér í þetta. Næstu daga á eftir vakna ég með sömu felmtran. En dagarnir líða og akrar, dýr og fólk rúlla hjá. Það er sól. Það er meðvindur. Skrokkurinn lagar sig að þessu nýja lífi. Nema hendurnar. Ég fæ doða í litlu puttana og í allan handarjaðarinn á hægri hendi og les mig til. Klemmd úlnliðstaug. Vitlaus staða. Ég er ekki að fara að breyta uppsetningu á hjólinu núna og taka áhættu með allskonar afleiðingar af því. Svo ég reyni það sem eftir er ferðar að forðast að hafa of mikla beygju á úlnliðnum.

Mynd: Geir – Sveitavegirnir á milli akrana afmarkaðir af þessum lífrænu veggjum.


Á upphafsstað, á degi eitt, hittum við eldri hjón sem gefa sig á tal við okkur og spyrja um okkar plön. Þau eru þá að spóka sig á Land’s End daginn eftir að hafa klárað að ganga alla leið suður frá John O’Groat á 90 dögum. Við hittum líka ansi létta hjólara sem þykjast vera að klára en eru þá bara í sunnudagstúr um heimahaga. Bretarnir alltaf með húmorinn í lagi. Við brosum auðvitað en það er ekki laust við að það sé smá kvíði í manni fyrir verkefninu framundan. En þarna er startlínan og við leggjum í hann eftir myndatöku við upphafsstaurinn.
Við svífum áfram eftir göngum sem liggja milli akra bænda. Það eru hekkveggir sem afmarka akrana og milli þeirra er einbreiður malbikaður vegur. Það er ekki hægt að mætast svo það eru útskot annað slagið. Þeir sem nota þessa vegi helst fyrir utan okkur eru bændurnir sjálfir á sínum dráttarvélum og svo iðnaðarmenn sem eiga erindi til að sinna þörfum bændanna. Hvorugir hafa mikinn skilning á okkar flandri en þeir víkja samt fyrir okkur. Þessir veggir eru gjarnan þriggja metra háir. En til að komast inn á akrana eru skörð í veggina og hlið. Þessi skörð veita manni ústýni yfir landið. Það væri líklega mjög einfalt eitthvert kvöldið ef við finnum ekki tjaldstæði að lauma sér inn um eitt hlið og tjalda úr augsýn frá nokkrum sem ekki beinlínis eltir okkur sömu leið.

Mynd: Kristján – Hjólið hans Kristjáns fullpakkað með tjaldi, dýnu, svefnpoka, fötum, verkfærum, raftækjum og nesti.


Já, tjaldstæði. Það er víst bannað að tjalda hvar sem er í Englandi en það má í Skotland. Við erum ekki komnir þangað – langt frá því. Það sem verra er að samkvæmt upplýsingum úr ýmsum áttum þarf að panta pláss með fyrirvara og nú eru skólafrí að byrja og þá geta þau verið umsetin. Þar að auki segir netið oft að ekki megi mæta seint um kvöld. Við erum að hjóla allan daginn og fram að kvöldmatartíma. Við vitum ekki hvað við náum langt. En á einhverjum tímapunkti þurfum við að stoppa og tjalda og borða kvöldmat. Fyrsta plan var að finna tjaldstæði og tjalda svo það væri klárt og fara svo og finna mat. En raunin varð akkúrat á hinn veginn því oftast reyndist auðsótt að komast inn með tvö lítil tjöld en flestar sveitakrár loka eldhúsum sínum klukkan átta.

Mynd: Geir – Svona liggur landið sunnavert í Englandi. Hæðarbreytingar dagsins söfnuðust mest upp í 2000 metra.


Á einum stað hittum við á kráareiganda sem líka rak tjaldstæði. Við mættum þangað um sjö leitið blautir og hraktir. Vertinn var hundfúll að við ættum ekki pantað en aumkaði sér yfir okkur. Það reyndist vera nægt pláss á tjaldstæðinu. En þegar við mættum svo í venjulegum klæðnaði til kvöldverðar og pöntuðum fullt af mat og drykk fór hann allur að hressast. Fyrir rest var hann orðinn besti vinur okkar. Ég held við verðum fyrir tvenns konar fordómum. Annars vegar vegna þess að við mætum í spandex galla og hins vegar vegna þess að tal okkar bendir til að við séum Hollendingar. Hvorugt virðast breskir kráareigendur þola.
Fyrstu þrjá til fjóra dagana er rútínan að slípast til. Vakna milli sex og sjö, pakka og borða eitthvað af nesti gærdagsins, eða ekkert ef ekkert var eftir. Hjóla af stað um átta. Finna kaffihús og borða vænan morgunmat um tíu leytið. Kaupa vatn, hnetustangir og banana og hlaða á hjólið. Hjóla svo kannski til halftvö. Stoppa þá og borða vænan hádegismat. Um fimm leytið er maður kannski búinn með níutíu kílómetra og þá fer maður að borða af nestinu, standa meira upp á hjólinu og passa sig að kíkja ekki of oft á kílómetratölu dagsins. Láta það frekar koma þægilega á óvart að maður sé búinn með tíu kílómetra síðan maður kíkti síðast. Borða vænan kvöldmat um sjöleytið. Koma sér á tjaldstæði fyrir klukkan níu. Tjalda og sofa.

Mynd: Kristján – Þarna er allt dótið hans Kristjáns fyrir utan hjólið og hann sjálfan sem stóð á Adamsklæðunum við myndatökuna.


Við erum mikið á þessum vegum milli akranna. En svo komum við í Devonsskíri og Somersetskíri og þá koma dagar þar sem við hjólum mikið á malar- og moldarstígum meðfram síkjum. Þar er fólk að njóta sumarfrís á síkjabátum. Eldar góðan mat. Stekkur í land til að opna næsta lás í skipastiganum, og lífið liðast áfram í hægasta hægagangi á meðan við þjótum framhjá og heilsum kurteislega og afsakandi fyrir að vera á hraðferð. Kannski ég nái þessu einhvern tímann að geta verið svona rólegur í sumarfríinu.

Mynd: Geir – Bátalífið er greinilega afslappað.


Mynd: Geir – Bátafólkið þarf að kunna tökin á þessum lokum

Aðrir stígar sem eru mjög skemmtilegir á þessum sömu slóðum eru gömlu aflögðu járnbrautarlínurnar. Þökk sé honum Richard Beeching sem mundaði niðurskurðarhnífinn all svakalega á sjöunda áratugnum. Þessir leiðir eru breiðar og án nokkurra hæðarbreytinga því lestir þola þær illa. Svo er alveg endalaust af fallegum gömlum brúm, hlöðnum úr grjóti, bæði sem maður fer yfir og undir. Gróðurinn er að yfirtaka þetta allt saman og upplifunin er eins og í einhverju ævintýri sem gerist í dimmum skógi með gömlum dularfullum rústum genginnar menningar.

Mynd: Geir – Gömlu járbrautarleiðirnar sem nú hafa fengið nýtt hlutverk og eru orðnar úrvals hjóla- og gönguleiðir.
Mynd: Kristján – Bókasafnið góða í þorpinu með tehúsinu góða.


Í einu litlu sveitarþorpi í Somerset eru nokkrar gamlar konur að skima inn í gamlan, breskan, rauðan símaklefa. Við stoppum. Þetta er þá bókasafn bæjarbúa. Þær eru forvitnar um hvað við erum að gera. Við erum svangir sem endranær og ein þeirra bendir okkur á að dóttir hennar reki tehús við kastalann. Við beint þangað. Manni finnst maður vera nakinn þegar maður gengur inn á svona virðulegt tehús á spandexinu einu fata. Enda er horft á mann en þarna voru allir vingjarnlegir og forvitnir. Við pöntuðum allan matinn á matseðlinum eins og okkar var venja og áður en við vissum af var mamman mætt að sjá til þess að við fengjum matinn okkar fljótt og vel. Dóttirin lét það yfir sig ganga. Mér varð hugsað til Mæju á Ökrum. Það er mikið af gömlu fólki í þessu þorpum. Við urðum varir við jarðarfarir en engar skírnir eða brúðkaup. Það fæðast ekki margir í þessum þorpum. Fólkið er gamalt og hverfur ábyggilega fyrir rest. Hvað verður um þessi þorp? Efniviðurinn í þessi þorp er grjótið úr hlíðunum og kyndingin í þessum þorpum er viðurinn úr skóginum í kring.

Mynd: Geir – Kirkjurnar í þessum litlu þorpum eru sumar hverjar allt frá 13. öld.


Svo kom dagurinn þar sem byrjaði að rigna. Það var dagurinn sem við gáfumst upp þrjátíu kílómetrum fyrir áætluð lok og ruddumst inná vertinn fyrrnefnda sem var líka með tjaldstæði. Það passaði svo sem vel fyrir daginn eftir því þá vildum við líka hætta með 30 kílómetra skuld og heimsækja vin Kristjáns sem bauð okkur í mat og uppábúin rúm, sturtu og þvott á skítugum fötum. Þvílíkt dekur. En nú var komið að skuldadögum. Þrátt fyrir vætu og vosbúð þurftum við að vinna upp og gott betur. Við vorum búnir að bóka bílaleigubíl á laugardeginum klukkan eitt. Dagurinn sem átti að vera síðasti dagurinn í fjórtán daga áætlun. Við hjólum ekki 100 km dag og svo 30 kílómetra í næsta bæ fyrir hádegi. Það var því orðið ljóst að við yrðum að klára þetta á 13 dögum.

Mynd: Geir – Allt með kyrrð og ró í Englandi.


Bæir og borgir eru sér kapítuli. Þegar maður nálgast þá kemur maður inn á hjólastíga sem verða kræklóttari þegar borgin þéttist. Þá þéttist líka umferð á þeim og það hægir verulega á manni. Fólk er úti að viðra sig með hunda og börn. Svo hægir enn meira á ef gönguljós bætast inn í myndina.

Mynd: Geir – “National cycle network” í Bretlandi er vel merkt net hjólaleiða. Við vorum mikið á þeim stígum.


Annað vandamál við borgir og nálægð við þær sem við sáum ekki fyrir er að þar eru engin tjaldstæði. Edinborg er stærsta borgin sem við þurftum að komast framhjá. Það gerðum við með því að fara vestan við hana í gegnum bæ sem heitir Queensferry. Það gekk þokkalega en farið að líða vel á daginn og ekkert tjaldstæði fannst á netinu fyrir sveitina framundan, norðan við Firth of Forth. Enda fór það svo að við borðuðum skyndibita og hjóluðum svo upp á næstu heiði, fundum skógræktarstíg og lund sem við notuðum sem tjaldstæði. Það gekk vel og ekki sála á ferli á þessum slóðum um nóttina. Reyndar heyrðist í hundum gelta alla nóttina og ekki eins og þeir væru að gelta af gleði. En eyrnatapparnir tryggðu svefninn. Um morguninn þegar við hjóluðum af stað sáum við fljótlega heimreið og skilti sem auglýsti hundahótelið Happy Dog.

Mynd: Geir – þegar norðar kom urðu veggir milli akra hlaðnir úr grjóti.


En betra var nú að finna heiðarlegt tjaldstæði með kamri og sturtu og í heildina vorum við mjög heppnir með þau tjaldstæði sem við fundum og völdum. Það eru margir sem auglýsa sín tjaldstæði þannig að þau séu einföld og ekki fyrir vagna, aðeins fyrir venjuleg tjöld. Þetta eru þá bændur sem hafa lagt í að búa til aðstöðu á sínu landi og ljóst að mikið af þessu fólki hefur lagt alúð í að gera þetta vel. Það væri gaman að sjá meira af þessu á Íslandi.
Eitt tjaldstæði í Cornwall var eplaakur. Við bókuðum á netinu. Það var sól og fallegt síðdegi þegar við komum þangað. Þar var ekki sála fyrir utan okkur. Þar var gott skýli til að fara yfir allan búnaðinn, frábærar sturtur með nóg af heitu vatni og klósett með rennandi vatni. Svona var þetta langoftast og kostaði 6 til 10 pund á mann nóttin.

Mynd: Geir – Dalakofinn. Þar búa ung hjón í afdalakoti og með alveg dásamlegt tjaldstæði.
Mynd: Kristján – Allt til alls í Dalakofanum. Meira að segja sykurpúðar.


Á öðru tjaldstæði vorum við ekki einir því þar tók á móti okkur heil fjölskylda. Fjölskyldufaðirinn í fríi frá vinnu sinni á olíuborpalli og mikið feginn að fá okkur til að spjalla við og bjóða upp á einn drykk eða tvo. Þarna var enn þurrt á okkur. Eins og Íslendingar þá tala Bretar mikið um veðrið. Þetta sumar hafði verið afleitt það sem af var. Það hafði jú verið með eindæmum þurrt heima og þá er oft rigning í Bretlandi. Það væsti nú ekki um okkur þó það bleytti aðeins í 14 stiga hita en þeim fannst þetta ekki boðlegt.
Að mæta á tjaldstæði í rigningu þýðir að maður er þegar orðinn blautur. Að tjalda í rigningu þýðir að innra tjaldið blotnar því það þarf að tjalda því fyrst. Við erum með ofurlétt tjöld frá Big Agnes í Colorado. Svo þarf að þurrka innan úr tjaldinu, koma dýnunni, svefnpokanum og þurru fötunum inn. Drífa sig svo inn og skipta. Vinda sokkana. Leggja þá á gólfið. Þeir verða skárri morguninn eftir fyrir vikið. Leggja hjólabuxur og bol líka á gólfið af sömu ástæðu. Svo undir morguninn er gott að kippa gallanum aðeins oní pokann og hlýja honum áður en maður skellir sér í hann aftur. Innleggin úr skónum fá sömu meðferð og sokkarnir. Allt þetta gerir það bara nokkuð bærilegt að drífa sig aftur útí rigninguna daginn eftir. Hjóla þá í sig hita og finna svo kaffihús og borða morgunmat. En svo kom oft þerrir fyrir hádegi og jafnvel fram á kvöld. Þá þornaði hratt á manni.

Mynd: Kristján – Dæmigerður morgunmatur. Maður er jú líklega að brenna 4 til 5 þúsund hitaeiningum á dag.


Eitt kvöldið vorum við lentir í rigningu og ekki búnir að finna náttstað en við vorum búnir að hringja í krá sem var framundan og bóka mat. En þá hjólum við allt í einu fram á tjaldstæði við veginn. Það virðist vera fullt. En við reynum og jú, blessuð konan sem rak tjaldstæðið sagðist alltaf bjarga hjólurum, fann pláss fyrir okkur og hitaði örbylgjupizzu. Það var vel þegið það kvöldið. Þar hittum við fjóra Breta sem voru að hjóla suður. Þeir þá nýlega byrjaðir en við farnir að sjá fyrir endann. Þeir voru hver öðrum ólíkari og á furðulegu samansafni af hjólum. Einn þeirra bar því við að hann væri orðinn 58 ára og því gamall og lúinn. Ég verð ekki 58 ára fyrr en í haust svo það var ekki skrítið að ég líti út fyrir að vera miklu eldri en hann. Hann gat varla staðið uppréttur og svo svakalega hjólbeinóttur að hann hefði getað hjólað á þremur hjólum í einu. En þetta voru þeir þó komnir og héldu sína leið suður á bóginn daginn eftir. Við sáum að þeir þyngri í hópnum leiddu hjólin sín upp á veg. Það var ekki mikil brekka í samanburði við það sem bíði þeirra sunnar. Það væri gaman að vita hvernig ferðalagið gengur hjá þeim.

Mynd: Geir – Kristján gluggar í bókina góðu sem við fylgdum varðandi leiðarvalið.


Þyngdin já. Margir hjólarar eru með miklar hliðartöskur sem virka þungar að sjá. Hvað er fólk eiginlega að taka með sér? Reyndar vorum við ekki með græjur til að elda mat né til að borða mat af eða með. En við komumst af með það litla sem við tókum með okkur. Hjólið mitt komið oní kassa með öllum farangri vigtaði 22 kíló á flugvellinum á leið heim. Það þýðir að farangurinn er innan við 12 kíló. Tjaldið er 1,5 kíló, svefnpokinn og dýnan samanlagt um kíló. Svo eru föt, varahlutir, verkfæri, ljós, hleðslubanki, snúrur, tannbursti, tannkrem og töskurnar sjálfar.
Það var líka ansi fátt með sem maður notaði ekki. Það var líklega bara slangan, bæturnar og tappasettið. Það sprakk aldrei.

Mynd: Geir – Hjól Geirs fullhlaðið í hádegisstoppi í Gloucester.


Í þorpi norðarlega í Englandi höfðum við hitt hjón sem voru mjög forvitin um leiðina okkar. Þau sögðu að það yrði fallegra og fallegra því norðar sem við kæmum og nú vorum við komnir norður í skosku heiðarnar. Þær eru fallegar en líka ansi líkar sveitunum heima. Það var forvitnilegra fyrir okkur að upplifa landslagið sunnar.

Mynd: Geir – Grímsstaðir á Fjöllum eins og við kölluðum tjaldstæðið uppi á heiðum Skotlands.


Upp á miðri heiði fundum við gistiheimili. Rekstraraðilar þar voru ung hjón með tvö börn nýflutt frá Alabama. Þeim líkaði ekki ástandið heima og alls ekki að ala upp börn þar svo hingað voru þau komin. Þau voru glöð og skemmtileg en þetta hlýtur nú að vera dálítið sjokk og brjáluð vinna. Þau seldu okkur mat og bjór og leyfðu okkur að tjalda í garðinum gegn því að við styrktum kirkjusjóðinn í sveitinni. Þarna vorum við farnir að vinna á. Hjóluðum lengra og lengra inn í næsta dag og nú var svo komið að við gætum klárað daginn eftir ef vel gengi. Dagurinn sá byrjaði á 40 kílómetrum beint í norður á móti allnokkurri norðvestananátt að bænum Tungu, já, örnefni og bæjarheiti verða ansi íslensk þarna nyrst í Skotlandi. Við Tungu sveigir leiðin beint til austurs og þá fengum við vindinn í bakið og rúlluðum síðustu 100 kílómetrana nokkuð létt í björtu og fallegu veðri með fallegt útsýni norður á ljósar strendur og sægrænan sjó.

Mynd: Geir – Sæluhús eða neyðarskýli á skoskri heiði.


Dýralífið. Húsdýrin eru margvísleg. Kýrnar af mörgum tegundum. Sumar meira að segja loðnar með stór sveigð horn. Kindurnar margar með hala í stað dindils. En villtu dýrin. Það er önnur saga. Næstum því öll villt dýr sem við sáum voru kramin. Höfðu lent undir bíl. Þetta voru mest broddgeltir. Mikið af kanínum og hérum og svo sáum við líka nokkra greifingja. Það eru stór dýr.
Fuglarnir voru reyndar lifandi. Af þeim sáum við mest af stórum dúfum og allstórum, bláum, svörtum og hvítum fuglum sem mig grunar að sé kannski skjór.

Mynd: Geir – Tunga og Breiðtunga nyrst á Skotlandi. Síðan sveigðum við undan vindi til austurs með ströndinni að John O’Groat.


Á leiðarenda er staur og skilti sem bendir suður á upphafspunkt sem hefur jú samskonar staur sem bendir í norður. Við fengum einn hjólara sem var þar til að taka myndir af okkur. Sá hafði klárað á tíu dögum. Það er ansi hratt farið en mig grunar að konan hafi elt hann á bílnum með farangurinn. Hvað um það. Við tjölduðum þarna og fórum á hótel bæjarins og gerðum vel við okkur í mat og drykk. Dagurinn eftir byrjaði nú samt eins og næstu þrettán dagar á undan því við þurftum að hjóla 30 kílómetra til bæjarins Wick. Þar er næsta bílaleiga og þar áttum pantaðan bíl, hvaðan við keyrðum svo til Glasgow á þessum laugardegi í verslunarmannahelgi. Í Glasgow gistum við tvær nætur á flugvallarhóteli, fylgdumst með heimsmeistaramóti í hjólreiðum á sunnudeginum, sóttum kassa og pökkuðum hjólunum, og flugum svo heim á mánudeginum.

Mynd stolið aftan af bók Richard Barrett af leiðinni. Við tókum rauðu leiðina alla leið.


Meira ruglið. Það var yfirskrift leiðangursins í upphafi. Var þetta rugl? Þetta var þolraun. 1711 km sem eru rúmlega 130 km á dag í 13 daga. Skrokkurinn þóttist vera góður á meðan á þessu gekk en á þriðja hvíldardegi eftir að heim var komið fóru að koma í ljós allskonar stífleikar. En þetta var algjörlega þess virði. Það var engin móttökunefnd sem fagnaði okkur á leiðarenda. Þetta hefur allt verið gert áður. Fyrst og fremst langaði okkur bara að fara af stað og njóta ferðarinnar hvort sem að við kæmumst alla leið eða ekki.
Nú, mánuði eftir að ég kom heim er dofinn aðeins að lagast í höndunum og ég er farinn að hjóla aftur í vinnuna. Hvað næst?

Mynd: Kristján – Komnir í mark og aðeins slæptir að sjá en samt í góðu standi.

Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *