Nú sló ég nýtt met sem ég vona að ég slái aldrei. Það er metið í stuttum fyrirvara fyrir 2ja vikna ævintýri á framandi slóðum. Síðasta sumar ákvað ég með um viku fyrirvara að fara og hjóla Bretland endilangt. Nú hringdi bróðir minn í mig klukkan 5 síðdegis og sagði mér að það væru förföll í skíðaferð til Hokkaido í Japan sem færi af stað morguninn eftir. Ég ákvað að slá til og var kominn með flugmiða og allar gistingar 2 tímum seinna.
Finnair eru snillingar í að bjóða flug til Asíu frá Helsinki og meira að segja líka alla leið frá Reykjavík með viðkomu í Helsinki. Leiðin frá Helsinki til Tókýó á að vera um 11 tíma flug en vegna stríðsins í Úkraínu tekur það nú um 13 tíma. Það þarf jú að krækja fyrir Rússland og Úkraínu. Á leiðinni til Tókýó flugum við beint í suður frá Finnlandi og suður í mitt Svartahaf áður en við gátum sveigt til austurs. Svo þarf reyndar líka að krækja suður fyrir Norður-Kóreu. Á leiðinni heim flugum við aftur á móti í norð-austur frá Japan upp með austur strönd Rússlands upp í Beringsundið. Þar var sveigt til norðurs, yfir Norðurpólinn, yfir Svalbarða og loks inn yfir norður-Noreg og Finnland að Helsinki. Finnair lét alla í vélinni hafa skjal upp á það að hafa flogið yfir pólinn.
Á flugi til Japan fann ég í afþreyingarkerfi flugvélarinnar japanska bíómynd um tvo bræður sem erfa baðhús eftir pabba sinn. Ég hafði heyrt um þessi baðhús sem almenningur baðar sig í þar sem ekki er baðaðstaða heima fyrir. Tommi félagi minn sem var líka með mér í þessari ferð hafði farið áður til Japan að skoða japanska lystigarða og lenti í ansi skemmtilegri uppákomu í svona baðhúsi. Mig langaði að kynna mér þetta betur og horfði því á myndina. Myndin heitir Yudo sem er greinilega ekki sama orð og Judo og þýðir “vegur vatnsins” eða “leið vatnsins” eða eitthvað í þá veruna. Þetta baðhús sem bræðurnir erfa er greinilega ekki mikið gróðafyrirtæki. Þetta er lítil persónuleg þjónusta fyrir íbúa hverfisins. Annar bróðirinn vill rífa þetta og byggja íbúðablokkir. Þannig fengist eitthvað út úr þessu. Þetta er að hluta til fjöskyldusaga og að hluta ástarsaga. Allt endar vel og baðhúsið fær að lifa eftir átök og sviptingar. En ég held að þá sé nokkuð ljóst að með breytingar á samfélögum og borgum þá hljóta þessi baðhús að eiga undir högg að sækja.
Þessi baðhús eru kynjaskipt. Karlar naktir öðrum megin við þilið og konur naktar hinu megin. Allir byrja á að setjast á lágan koll og þvo sér hátt og lágt með rennandi heitu vatni, þvottapoka, skrúbb og sápu. Svo má fara í heita potta, kalda potta og gufu. Tommi hafði farið í svona hús í einhverju hverfi í Kyoto. Hann tekur eftir því að það er stór Bens sem er uppi á gangstétt fyrir framan húsið. Þetta stingur í stúf því Japanir fylgja öllum boðum og bönnum af mikilli alúð. Þeir einu sem hunsa þetta eru meðlimir í japönsku mafíunni. Jæja, hann kemur inn, háttar sig og gengur inn á baðið. Hann sér þá að kollarnir til að sitja á og stykkin til að þvo sér með er staflað upp við innganginn en hann sér líka að þetta er þegar til staðar þarna á einum básnum svo hann sest þar og byrjar að þvo sér. Svo fer hann að heyra einhvern tjá sig mjög hátt og digurbarklega á japönsku en spáir ekkert í það þar til félagi hans í næsta bás segir honum að það sé maður fyrir aftan hann sem er að reyna að ná sambandi við hann. Svo Tommi lítur um öxl og sér lítinn kraftalegan mann, alsettan húðflúrum sem virðist vera ansi reiður út í Tomma. Mafíósar í Japan eru gjarnan með mikið af flúrum. Tommi fattar þá að hann hefði líklega betur sótt sér sinn eigin koll og þvottapoka en ákveður að þessu verði ekki breytt, og ekki ætlar hann að reyna að rökræða við þennan mann, svo hann heldur bara áfram að þvo sér eins og ekkert hafði í skorist. Þá bregður svo við að mafíósinn fer að skellihlægja að heimsku þessa útlendings og gengur í burtu.
Tommi átti auðvitað, samkvæmt japönskum prótókolum, að afsaka sig í bak og fyrir og bugta sig og beygja oní blautt gólfið. En hann er bara af öðrum menningarheimi. Við sem minnst vissum um japanska menningu vorum orðnir ansi stóreygir strax á flugvellinum í Tókýó þar sem við sátum og biðum eftir flugi áfram norður til Asahikawa á Hokkaido eyju. Við sáum fjórar japanskar stúlkur sem unnu fyrir flugfélagið undirbúa brottför. Þær lásu tilkynningu í hátalarkerfið og hneygðu sig svo allar djúpt í átt að sal sem enn var algjörlega mannlaus. Ef þær þuftu að ganga um lokaðar dyr þá hneigðu þær sig fyrst fyrir salnum sem þær voru að yfirgefa og svo fyrir salnum sem þær voru að ganga inn í. Allt gekk þetta smurt og við vorum komnir í fyrsta náttstað á laugardagskvöldi í Japan eftir að hafa farið af stað á föstudagsmorgni frá Íslandi.
Nú vorum við komnir í snjó og það ekkert lítið af snjó. Allar götur með ruðninga upp á einhverja metra og snjóaði alltaf eitthvað á hverju sólarhring í logni og þónokkru frosti. Vegstikum er komið fyrir á annan veg en við eigum að venjast. Okkar stikur myndu þarna þurfa að vera ansi háar og myndu þvælast fyrir snjómokstri sem þarna er tekinn ansi góðum tökum með mikið af sérhönnuðum vélum. Þeirra stikur hanga úr loftinu úr sveigðum staurum sem eru alveg eins og flestir ljósastaurar heima í Reykjavík, og benda niður á hvar vegkanturinn er. Ekkert er saltað né sandað og enginn er á nagladekkjum en umferðin gengur algjörlega án vandræða.
Ný byrjar ný dagleg rútina sem við munum lifa eftir næstu 10 dagana eða svo: vakna, fara í japanskan slopp og jakka, mæta þannig í japanskan morgunmat, skipta svo í skíðagallann, keyra í búð, versla nesti, keyra að brekkum dagsins, ganga upp, renna sér niður, endurtaka það jafnvel nokkrum sinnum yfir daginn, fara aftur heim á hótel, skipta yfir í slopinn og jakkann, fara í baðhús hótelsins og baða sig, fara í matsal hótelsins og borða japanskan kvöldmat í japanska gallanum, fá sér nokkra drykki og fara svo að sofa í japönsku fleti á gólfi japansks hótelherbergis. Það er ótrúlega mikið frelsi í því að þurfa ekki að fara í brók og síðbuxur nema ef maður fer út úr húsi.
Við erum 9 “farþegar” í þessari ferð. Svo er einn fjallaskíðaleiðsögumaður frá Íslandi en einnig erum við með japanskan fjallaskíðaleiðsögumann með okkur. Hann býr á Hokkaido með konu og 4 mánaða barni. Á sumrin eru þau lavender-bændur en á veturna er hann að leiðsegja. Hann er afskaplega ljúfur drengur og þekkir sín fjöll út og inn. Hann reynir, á sinn kurteisa hátt, að hafa vit fyrir okkur þegar við förum út fyrir japanska rammann, t.d. með því að pissa utan í bílana á bílastæðunum þar sem við erum að búa okkur af stað til uppgöngu. Einn dag erum við að skíða í þjóðgarði og í lok dags förum við í náttúrulega heita laug sem búið er að byggja í nokkra stalla og með opnum palli til að hátta sig og klæða. Þetta kalla þeir líka Onsen eins og almenningsböðin. Það er jarðhiti víða á Hokkaido og svona laugar finnast því víða þar eins og á Íslandi. Ég tók eftir því að japanskir gestir þessara baðstaða tóku alltaf lítið handklæði með sér í heitu pottana, brutu það saman og settu ofan á höfuð sér. Ég spurði japanska leiðsögumann okkar hverju þetta sætti. Hvort þetta væri til að hindra útgufun eða ofhitnun. Nei nei, svaraði hann, þetta er bara einfaldasti staðurinn til að geyma handklæðið á meðan maður baðar sig.
Brekkurnar þarna eru svo hlaðnar lausamjöll að maður má hafa sig allan við að ná andanum á leið niður þegar snjórinn gusast framan í mann. Við skíðum mikið í birkiskógum. Þetta er stórvaxið, ljóst og fallegt birki. Snæhéra sáum við og spor eftir dádýr án þess þó að sjá þau. Marga daga þvældumst við um fjöllin án þess að sjá til ferða annarra hópa og þó svo að við sæjum aðra hópa var alltaf endalaust úrval af ósnertum brekkum til að leika sér í.
Einn daginn gengum við á ansi formfagra eldkeylu, Yötei-zan, sem er mjög áberandi í landslaginu þarna vestan við Sapporo, um 1900 metra há. Fjallið er ansi bratt uppgöngu, þéttur birkiskógur neðst sem þynnist svo en samt eru hríslur alla leið upp á topp. Færið ofan við 1200 metrana var vindpakkaður snjór og jafnvel ís inn á milli þannig að maður fékk smá heimþrá til íslenskra aðstæðna en neðan við 1200 metrana var færið eins og annars staðar á Hokkaido, lungamjúkt og skemmtilegt.
Japönsku klósettin! Þau eru nú kapítuli út af fyrir sig. Þvílk dásemdarklóstett! Af hverju erum við ekki búin að stökkva á þennan vagn? Upphituð seta, rassskol, píkuskol, blástur og jafnvel frumskógarhljóð til að fela búkhljóð. Svona var á hverju hóteli og hverjum veitingastað sama hversu frumstæður hann var.
Fyrstu dagana vorum við norður frá í kringum Asahikawa en svo færðum við okkur suður og vestur fyrir Sapporo og skíðuðum þar bæði á Yötei-zan og öðrum fjöllum þar í kring. Eftir 8 skíðadaga gistum við eina nótt í Sapporo og flugum svo aftur til Tókýó. Ég og nokkrir aðrir úr hópnum eyddum svo þremur dögum þar og kynntum okkur borgina. Borgin sjálf telst hafa 14 milljónir íbúa en hún og nærliggjandi borgir ná saman í eina risastóra 40 milljóna manna borg. Í miðri Tókýó er hæsta mastur heims, Tokyo Skytree, og er það yfir 600 metra hátt. Þar fórum við upp í 450 metra hæð til að sjá út yfir borgina en maður sér ekki út fyrir hana nema horft sé út á sjó. Svo víðfeðm er hún.
Ég er nú ekki mikið fyrir borgir en að búa í og rölta um miðbæ Tókýó er bara ansi ljúft. Þarna þeytir enginn bílflautur og umferðin virðist alls ekki vera svo mikil. Gangandi og hjólandi líða áfram í sátt og samlyndi og ekki stress á nokkrum manni. Keisarahöllin er þarna í miðjum bænum með mikla garða og síki í kring. Það er mikið líf í kringum fiskmarkaðinn og endalust framboð af allskonar fiskmeti en einng líka hægt að finna þar Kobe kjöt og Wagyu kjöt. Við gerðum vel við okkur og fórum á fína veitingastaði sem bjóða upp á svona kjöt. Það er engu logið upp á Japanina, þeir kunna að búa til mat. Þetta bráðnar upp í manni eins og smér. En kílóverðið á Kobe er allt up í 35.000 krónur. Reyndar verðmerkja þeir það miðað við 100 grömm. Enda hafa þarlendir kjöt meira til bragðbætis í máltíðinni heldur en til að borða sig saddan af því. Við fórum líka á fínan sushi stað og kokkurinn þar hafði bætt 2ja ára námi oná ansi langt sushi-kokka námið sitt til að mega matreiða blöðrufisk (fugu) sem inniheldur banvænt taugaeitur. Við hættum á að smakka hann líka og erum allir til frásagnar.
Að rétta einhverjum eitthvað með báðum höndum og taka við hlutum með báðum höndum og hneigja sig um leið er eitthvað sem maður sér Japani gera. Þarna er fólgin mikil virðing fyrir því sem þér er gefið eða afhent til brúks. Ég keypti húfu og bað afgreiðslukonuna að klippa af henni miðann fyrir mig þvi ég ætlaði að nota hana strax. Hún tók aftur við húfunni með báðum höndum og sótti svo skæri sem hún tók upp með báðum höndum af borði fyrir aftan sig og setti við hliðina á húfunni. Þá fyrst gat hún gripið skærin með annarri og húfuna með hinni og klippt miðann af. Þetta fannst mér magnað. Þarna var ekki bara virðing fyrir húfunni sem hún var að selja mér heldur líka fyrir hennar eigin skærum.
Í Tókýó er mikið um pagóður. Eina stóra skoðuðum við. Þar var urmull af fólki og mikið af konum í kímóno að spóka sig, andlitsmálaðar með uppsett hárið. Einnig sá maður unga menn skarta sínum þjóðbúningi, stoltir.
Þó ég hafi fundið þvi allt til foráttu að fara að þvælast til Japans og látið ganga á eftir mér með það að þá verð ég að viðurkenna að mig langar aftur og þá til að vera lengur. Skíðafæri í Hokkaido er einstakt í heiminum en það er fleira sem ég gæti hugsað mér að gera þarna. Ein hugmynd er að hjóla með farangur eins og ég gerði á Bretlandi. Svo er ég nú með ansi mikla bíla og mótorhjóla-dellu. Þar kemur maður ekki að tómum kofanum í Japan. Þeir eru snillingar í að smíða slíkt. Það væri gaman að heimsækja verksmiðjur fyrir Honda, Suzuki, Kawasaki, Toyota, Nissan, og fleiri.
Sjáum til hvað gerist.